Fjögur aðalskipulög sem EFLA hefur unnið eru í auglýsingu

08.04.2022

Fréttir
A rugged landscape with grassy area and dark rocky formation

Hengilssvæðið í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Fjögur aðalskipulög sem skipulagssérfræðingar EFLU hafa unnið eru nú í auglýsingu, eru þau fyrir sveitarfélögin Ásahrepp, Árborg, Rangárþing eystra og Ölfus – allt sveitarfélög á Suðurlandi. Þá er auglýsingu ný lokið fyrir aðalskipulag Grímnes- og Grafningshrepps. Sérfræðingar EFLU hafa áratuga reynslu í vinnu við aðalskipulagsmál.

Horft til framtíðar varðandi þróun og þarfir íbúa

Yfirleitt tekur það á bilinu tvö til þrjú ár að endurskoða aðalskipulag og er það á ábyrgð sveitarstjórnar hvers sveitarfélags að slík vinna fari fram. Þá er horft til þróunar sveitarfélagsins síðustu ár og líklegra þarfa þess til framtíðar. Stefna aðalskipulags byggir á skipulagslögum og fyrirliggjandi stefnu ríkis og sveitarfélaga. Er þar m.a. horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og landsskipulagsstefnu en hvort tveggja er nýtt sem umhverfisviðmið í umhverfismatsskýrslu til að meta líkleg áhrif af stefnu aðalskipulags á umhverfisþætti.

Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarfélagsins um landnotkun, byggðaþróun og byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál.

Helsta breytingin við gerð aðalskipulags, sem hefur orðið síðustu misseri, er áhersla á að það sé sett fram stefna um loftslagsmál og bindingu kolefnis. Sveitarfélögin setja sér markmið um hvernig þau geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og orðið kolefnishlutlaus.

Víðtæk reynsla í skipulagsmálum hjá EFLU

Reynslan vegur þungt þegar sveitarfélög semja um ráðgjöf vegna skipulagsmála því að mörgu er að huga í málaflokknum. Á meðal sérfræðinga EFLU er mikil reynsla og víðtæk þekking í skipulagsmálum sem hafa komið að fjölmörgum slíkum verkefnum víða um landið og eru verkefni EFLU á sviði aðalskipulagsmála fjölbreytt.

Skipulagsáætlanir eru unnar samkvæmt skipulagslögum og vinnur EFLA skipulagsuppdrætti á stafrænu formi og færir í landupplýsingakerfi, en frá 1. janúar 2020 er skilt að skila aðalskipulagsuppdráttum á slíku formi.

Öll skipulagsgögnin eru sett fram í vefsjá þar sem er jafnframt kortasjá þannig að almenningur geti skoðað ítarlega út frá ákveðnum svæðum og þáttum. Hér að neðan má skoða vefsjá fyrir aðalskipulag hvers sveitarfélags sem um ræðir.

Vefsjá fyrir aðalskipulag hver sveitarfélags

A map showing various regions, highlighted in different shapes of blue

Myndin sýnir framvindu verkefna m.v. stöðuna í apríl 2022 - Hægt er að smella á mynd til að stækka.