Aðalskipulag

Skipulagsmál, Skipulagsáætlun

Aðalskipulag er skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og tekur til alls lands, vatns og hafs innan þess. Aðalskipulag inniheldur stefnu sveitarfélags um landnotkun og þróun sveitarfélagsins og er unnið og endurskoðað af sveitarfélaginu að frumkvæði þess, í samráði við íbúa. 

Tengiliðir

Aðalskipulag sveitarfélaga

Í aðalskipulagi sveitarfélaga er sett fram stefna um landnotkun, byggðaþróun og byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfis- og loftslagsmál. 

Til einföldunar má segja að land­notkun snúist um hvar á að byggja hvað. Byggðaþróun um hvar á að byggja næst. Byggðamynstur um hvernig á að byggja. Samgöngu- og þjónustukerfi um hvar götur, göngu-, reið- og reiðhjólastígar skuli vera og hvar veitur skuli liggja. Umhverfismál fjalla um hvernig umgangast skuli umhverfi og náttúru.

Að marka stefnu í aðalskipulagi sveitarfélags er viðamikið verkefni og því býður EFLA sveitarfélögum að leita í reynslu- og þekkingarbrunn fyrirtækisins við að móta stefnu um landnotkun og setja fram í skipulagsáætlunum.

Öflug þekking á skipulagsmálum

Sérfræðingar EFLU hafa langa og yfirgripsmikla þekkingu á skipulagsmálum sveitarfélaga og hafa unnið með fjölmörgum þeirra við að setja fram stefnu um landnotkun í svæðisskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi.

Skipulagsáætlanir eru unnar skv. skipulagslögum. Aðalskipulag sveitarfélaga er sett fram í greinargerð og á skipulagsuppdráttum. EFLA vinnur skipulagsuppdrætti á stafrænu formi í landupplýsingakerfi (GIS), og í landshnitakerfinu ISN93. Auk þess er landupplýsingakerfi nýtt við greiningu á ýmis konar forsendum sem tengjast skipulagi s.s. flokkun landbúnaðarlands og staðarval vegna nýtingar á vindorku.

Gagnvirk kort og stafræn miðlun

EFLA leggur áherslu á rafræna miðlun upplýsinga og samráð við íbúa sveitarfélagsins. Við miðlun upplýsinga, t.d. vegna endurskoðunar á aðalskipulagi, er notast við landupplýsingakerfi sem setur fram gögn á rafrænu kortasvæði þar sem hægt er að skoða tillögur að breytingum á einfaldan og aðgengilegan máta. 

Með þessari nálgun geta sveitarfélög stuðlað að aukinni þátttöku íbúa við kynningu á skipulagsmálum auk þess sem meiri líkur eru á að ná til fjölbreyttari hóps íbúa. Framsetning á gagnvirkum kortum er hluti af þjónustu EFLU í málaflokknum og hluti af framtíðarþróun í stafrænni framsetningu efnis.

Í mörg horn að líta

Að marka stefnu sveitarfélags í aðalskipulagi er viðamikið verkefni og er því hjálplegt að leita í þekkingarbrunn og reynslu EFLU í málaflokknum.

Á meðal þjónustusviða eru

  • Aðstoð við gerð svæðisskipulags, aðalskipulags, og deiliskipulags
  • Þarfagreining vegna íbúðar-, frístunda-, eða atvinnusvæða
  • Skipulag gönguleiða, reiðleiða- og hjólreiðastíga
  • Skipulag núverandi og/eða nýrrar byggðar
  • Skipulag samgangna/umferðarflæðis og veitna
  • Gerð umferðaröryggisáætlunar
  • Flokkun landbúnaðarlands
  • Staðarval fyrir nýtingu á vindorku
  • Umhverfismat skipulagsáætlana

Þegar sveitarfélög semja um ráðgjöf vegna skipulagsmála vegur reynslan þungt í slíkri vinnu því að mörgu er að huga í málaflokknum. Innan raða EFLU býr mikil reynsla og víðtæk þekking í skipulagsmálum og hafa sérfræðingar fyrirtækisins hafa komið að fjölmörgum slíkum verkefnum víða um landið.

EFLA vinnur að aðalskipulagsmálum sjö sveitarfélagaMyndin sýnir framvindu verkefna m.v. stöðuna í apríl 2020 - Hægt er að smella á mynd til að stækka.

Algengar spurningar og svör um aðalskipulagsmál

Hvenær tekur nýtt eða endurskoðað aðalskipulag gildi?

Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, staðfest af Skipulagsstofnun og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Áður en það gerist þarf að hafa farið fram kynning á endanlegri skipulagstillögu sem veitir íbúum viðkomandi sveitarfélags og almenningi tækifæri til að koma með athugasemdir ef einhverjar eru. 

Hvað þarf helst að hafa í huga við gerð aðalskipulags?

Við gerð aðalskipulags skal byggt á markmiðum skipulagslaga, fyrirliggjandi stefnu ríkis og sveitarfélaga og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins á skipulagstímabilinu. Sveitarstjórn ber ábyrgð á vinnslu aðalskipulags. Við vinnslu aðalskipulags skal hafa samráð við íbúa og hagsmunaaðila.

Hvenær þarf að endurskoða aðalskipulag?

Að loknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Skal sú ákvörðun m.a. taka mið af því hvort landsskipulagsstefna kalli á endurskoðun.

Hverjir mega vinna aðalskipulag?

Skipulagsfræðingar, arkitektar, byggingarfræðingar, landslagsarkitektar, tæknifræðingar eða verkfræðingar sem hafa sérhæft sig á sviði skipulagsmála geta unnið og lagt fram aðalskipulagstillögur, skv. grein 2.5 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Tengd þjónusta


Var efnið hjálplegt? Nei