Aukin áhrif umhverfismála á atvinnulífið

19.10.2020

Fréttir
A smiling woman portrait set against a blurry background that includes plant

Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU.

Vel sóttur rafrænn viðburður var haldinn á vegum faghóps Stjórnvísi um framtíðarfræði og loftslagsmál. Helga J. Bjarnadóttir, hjá EFLU, hélt erindi um áhrif umhverfismála á hagkerfið og framtíðarþróun því tengdu.

Aukin áhrif umhverfismála á atvinnulífið

Í erindi sínu fjallaði Helga um mikilvægi þess að fara úr línulegu hagkerfi eins og var ríkjandi á 20. öldinni yfir í hringrásarhagkerfi þar sem áhersla er lögð á nýtingu og endurvinnslu og minni sóun verðmæta. Umhverfismál eru að hafa sífellt meiri áhrif á hagkerfið og ríkari krafa eftir trúverðugum upplýsingum og gagnsæi um frammistöðu fyrirtækja. Það á ekki síst við um umhverfislega eiginleika vara/þjónustu og er aukin eftirspurn eftir grænum valkostum. Mikil aukning hefur átt sér stað í svokölluðum grænum leiðum eins og t.d. græn skuldabréf og aðrir vistvænir valkostir.

Helga sýndi mynd af losun gróðurhúsalofttegunda síðustu árin og sagði „Það er nauðsynlegt að grípa í taumana og snúa við þeirri þróun í losun CO2 síðustu 20 árin til þess að hnattræn hlýnun fari ekki yfir 1,5°C líkt og markmið Parísarsamkomulagið gerir. Það verður því að skipta um orkugjafa, stuðla að betri orkunýtingu og að hringrásarhugsun verði nýja normið.“

A graph showing CO2 emission over time with different scenario

Losun koldíoxíðs frá 2000 og sviðsmyndir um losun til 2100.

Hvað er umhverfisvænt?

Það er nauðsynlegt að staðla hlutina til að auðvelda samanburð á hlutum sem eru umhverfisvænir og beita aðferðum sem eru viðurkenndar. Nefndi Helga nokkrar staðlaðar aðferðir sem fyrirtæki og sveitarfélög nota til að varpa ljósi á umhverfismál í rekstri sínum líkt og með GHG protocol. Mörg fyrirtæki nota umhverfisstjórnun, ISO 14001, og leggja fram samfélagsskýrslur ásamt því að nota ýmiss konar umhverfismerki eins og Svaninn. Helga nefndi líka að þegar fyrirtæki taka umhverfismálin föstum tökum hefur það áhrif á birgja og hefur það því áframhaldandi áhrif á alla virðiskeðjuna.

Hvernig metur maður kolefnisspor vöru?

Helga sagði frá nokkrum vistferilsgreiningum sem EFLA hefur unnið þar sem kolefnisspor hefur verið fundið út. En þegar verið er að meta kolefnisspor vöru þarf að horfa á alla virðiskeðjuna, frá auðlindanámi, framleiðslu, dreifingu, notkun og svo endurvinnsla/förgun. „Í þessari vinnu felst mikil upplýsingasöfnun og greiningarvinna og þarf að nota góða gagnabanka til verksins ásamt því að fylgja viðurkenndum stöðlum um gerð slíkra greininga.“ bætti Helga við.

Hringrásarhugsun byggingargeirans

Ísland hefur sett markmið um að vera kolefnishlutlaust 2040 og nefndi Helga að Finnland og Svíþjóð væru búin að ganga skrefinu lengra og stefna á að festa í reglugerð á næstu árum kröfur um viðmið fyrir kolefnisspor bygginga. Þá sagði Helga að hérlendis væri verið að vinna að vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð til árisins 2030 og er Húsnæðis og mannvirkjastofnun í forsvari fyrir það verkefni. Í þeirri vinnu væri lagt upp með aukna hringrásarhugsun, lágmörkun byggingarúrgangs, mælingar á losun, vistferilsgreiningar, græna hvata og umhverfisvottanir. „Það er þó mikilvægt að byrja þessa hugsun strax á skipulagsstigi og við hönnun mannvirkja og skiptir því aðkoma sveitarfélaga og hönnuða miklu máli.“ sagði Helga að lokum.

Fundurinn var haldinn föstudaginn 16. október var vel sóttur, góðar umræður sköpuðust í lokin og ljóst að umræðuefnið snertir ýmsa fleti samfélagsins. Það er velkomið að hafa samband við Helgu Jóhönnu til að fá frekari upplýsingar en EFLA veitir heildstæða ráðgjöf umhverfismála, t.d. grænt bókhald, kolefnisspor, umhverfisstjórnun og vistferilsgreiningar.

A diagram showing linear arrow and a circular graphic with multiple loops

Myndin vinstra megin sýnir línulegt hagkerfi og myndin hægra megin hringrásarhagkerfi.