Darc Awards verðlaun fyrir lýsingarhönnun í Raufarhólshelli

07.12.2018

Fréttir
metal stairs leading towards red stone wall in a cave

Lýsingarhönnun Raufarhólshellis hefur vakið mikla athygli og hlaut bæði Darc Awards verðlaun og Íslensku lýsingarverðlaunin.

EFLA hlaut hin eftirsóttu Darc Awards lýsingarverðlaun í gærkvöldi í flokki landslagslýsingar, Best landscape lighting scheme, fyrir lýsingarhönnun í Raufarhólshelli. Þetta er í annað sinn sem EFLA vinnur þessi verðlaun en alls voru 40 alþjóðleg lýsingarverkefni tilnefnd í flokknum að þessu sinni.

lýsingarhönnun í Raufarhólshelli

Darc Awards eru ein virtustu lýsingarverðlaun í greininni og eru afhent árlega þeim sem þykja hafa skarað fram úr í lýsingarhönnun á árinu. Verðlaunin eru haldin á vegum Arc-Magazine, alþjóðlegu fagriti, sem fjallar um eftirtektarverð verkefni sem tengjast lýsingarhönnun og arkitektúr. Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í London í gær, fimmtudaginn 6. desember. Ágúst Gunnlaugsson, lýsingarhönnuður, var að vonum glaður þegar úrslitin voru tilkynnt í gær „Það er alveg frábært að fá þessi verðlaun, sérstaklega þar sem um er að ræða jafningjaverðlaun og það er mjög ánægjulegt. " sagði Ágúst í símaspjalli frá London en hann ásamt Arnari Leifssyni tók á móti verðlaununum fyrir hönd EFLU.

An award made of clear glass with text "darc award" engraved into it

Tvær tilnefningar

Auk fyrstu verðlauna fyrir lýsingarhönnun í Raufarhólshelli hlaut dótturfyrirtækið KSLD EFLA tilnefningu til bestu innanhúslýsingarhönnunina fyrir þingsalinn í Þinghúsi Skotlands en það verkefni hlaut Codega lýsingarverðlaunin fyrr á árinu. Skoska hönnunarstofan KSLD sameinaðist EFLU fyrr í haust en stofan hefur byggt upp afar gott orðspor fyrir lýsingarhönnun í þrjá áratugi. KSLD EFLA er því sameinaður hópur lýsingahönnuða frá Noregi, Íslandi og Skotlandi, með breiða þekkingu, reynslu og státar af fjölmörgum verlaunuðum verkefnum.

Jafningjamat sker úr um sigurvegara

Alþjóðleg dómnefnd tilnefnir verkefni í öllum flokkum en innsendar tillögur voru um 400 talsins. Val á sigurvegurum er síðan í höndum um 1.400 fagaðila sem starfa á sviði lýsingar, hönnunar og arkitektúrs. Fagaðilarnir velja því eitt verkefni í hverjum flokki sem þeim þykir vera best og er því um sannkallað jafningjamat að ræða. Tilnefningar skiptust í sex flokka og voru m.a. veitt verðlaun fyrir lýsingu bæði utan- og innanhúss, landslagslýsingu, lýsingu á listaverkum og viðburðum. Flokknum "Best landscape lighting" var skipt niður í "high budget" verkefni og "low budget" verkefni og vann EFLA flokkinn "high budget" en í honum voru 24 verkefni tilnefnd en 16 verkefni tilnefnd í "low budget", samtals 40 verkefni.

Lýsingin í Raufarhólshelli vekur mikla eftirtekt

Fyrr á árinu hlaut EFLA íslensku lýsingarverðlaunin í flokki útilýsingar fyrir Raufarhólshelli en hellirinn er afar tilkomumikill og hefur verið vinsæll ferðamannastaður frá því hann opnaði fyrir rúmu ári.

Við lýsingarhönnun og ljósastýringu Raufarhólshellis var lagt mikla áherslu á að auka stemningu svæðisins og skapa eftirminnilega upplifun. Markmið lýsingarhönnunar var að kalla fram sterkt samspil skugga og ljóss og ná fram sem náttúrulegustum litum. Lýsing skyldi stigmagnast eftir því sem innar væri komið í hellinn og lýsa vel upp jarðfræðilega hápunkta hellisins. Göngustígalýsing var hönnuð með það í huga að spila vel saman við umhverfið með hnitmiðaðri og lágtónaðri birtu. Þá miðaði hönnunin við að allur rafbúnaður yrði sem minnst sjáanlegur og allar framkvæmdir tengdar lýsingu og raflögnum væru að fullu afturkræfar.

Snjallar lausnir

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lýsingahönnuðir hjá EFLU fá Darc Awards verðlaun en árið 2016 hlaut teymið Best of the best fyrir lýsingarhönnun í Ísgöngunum í Langjökli. Einnig fékk EFLA íslensku lýsingarverðlaunin 2017 og 2015.

EFLA þakkar auðsýndan heiður, við erum bæði hreykin og þakklát fyrir þessa viðurkenningu, og óskum jafnframt öðrum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.