Gangavinnu við Dýrafjarðargöng miðar vel áfram

27.09.2018

Fréttir
Great view of fjord and mountains in the background of a coastal village

Horft yfir botn Borgarfjarðar í Arnarfirði.

Merkum áfanga var náð síðasta laugardag við gerð Dýrafjarðarganga þegar síðasta færan í göngunum Arnarfjarðarmegin var sprengd og lauk sprengigreftri þeim megin. EFLA og Geotek sjá um verkeftirlit með gangagerðinni, en Metrostav og Suðurverk eru verktakar.

Við þennan áfanga er lengd ganganna orðin 3,66 km, sem er 69% af heildarlengd þeirra, en alls verða göngin 5,6 km. Samtals voru 740 færur sprengdar í göngunum Arnarfjarðarmegin auk sprengivinnu í hliðarrýmum útskota. Meðalfærulengd, þ.e. sú lengd sem sprengd er í einni sprengingu, er 4,94 m sem er góður árangur.

Haldið yfir í Dýrafjörð

Á næstu vikum hefjast flutningar verktaka yfir í Dýrafjörð en að auki verður unnið að lokastyrkingum Arnarfjarðarmegin. Núna í haust er áætlunin að hefja lagnavinnu í göngunum og gert er ráð fyrir að fyrsta sprenging Dýrafjarðarmegin verði í annarri viku í október.

Samhliða gangavinnu hefur verið unnið við vegagerð í fjörðunum báðum ásamt brúargerð í Arnarfirði við Mjólkárbrú og Hófsárbrú. Þeirri vinnu miðar vel áfram og er farið að móta fyrir veglínunni á löngum köflum.

Öflug reynsla á sviði jarðganga

Starfsfólk EFLU hefur mikla reynslu af jarðgangagerð, bæði vegganga og vatnsaflsganga, og kom að verkeftirliti Vaðlaheiðarganga og Bolungarvíkurganga. Þá sá EFLU um hönnun og ráðgjöf allra tæknikerfa Norðfjarðarganga.

Vinna við Dýrafjarðargöng hófst sumarið 2017 og gert er ráð fyrir að verklok verði í september 2020.

Tengdar fréttir