Góður árangur í lækkun kolefnisspors

19.10.2021

Fréttir
A man and a woman standing with a smile in front of a vertical wooden wall

Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri byggingasviðs, og Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs. Mynd: Sigtryggur Ari, Fréttablaðinu.

Hjá EFLU er unnið að rúmlega 3.000 verkefnum árlega og mikil áhersla er lögð á að veita ráðgjöf sem hefur jákvæðari umhverfisleg áhrif, sérstaklega hvað varðar loftslagsmál.

Góður árangur í lækkun kolefnisspors

Umhverfisráðgjafar EFLU koma nú inn í upphafi allra verkefna og vinna með verkefnisteyminu við að leita leiða til að bæta lausnina með tilliti til umhverfisins, sjálfbærni og jákvæðari umhverfisáhrifa. Að sögn Helgu Jóhönnu Bjarnadóttur, sviðsstjóra samfélagssviðs, leggur EFLA mikla áherslu á umhverfismál og samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið hefur unnið að fjölmörgum rannsókna- og þróunarverkefnum sem miða að því að bæta lausnir með tilliti til umhverfismála. „Með vistvænni hönnun og vottun er tryggt að bygging, eða önnur mannvirki, hafi sem minnst umhverfisáhrif á líftíma sínum, sé heilsusamleg fyrir notendur og að viðhaldsþörf sé sem minnst. segir Helga. EFLA tók þátt í samvinnuverkefninu „Byggjum grænni framtíð“ þar sem þróaður er vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð. Fyrirtækið leitast við að sýna frumkvæði í lausnum sínum og nýlegt dæmi um slíkt eru útreikningar á kolefnisspori ólíkra valkosta Sundabrautar fyrir Vegagerðina."

Hringrásarhagkerfið mikilvægt og EFLU-þing framundan

Ráðgjöf sem snýr að umhverfismálum skipar stóran sess í þjónustu fyrirtækisins og hefur EFLA aðstoðað á þriðja tug fyrirtækja við innleiðingu umhverfisstjórnunar. Nýsköpun og þróun skipar viðamikinn sess í starfseminni. Má þar til dæmis nefna ráðgjöf vegna úrgangsmála, endurvinnslu lífræns úrgangs líkt og var gert við fráveitulausn við Mývatn, vistvænna ofanvatnslausna eins og var gert við hönnun Urriðaholts og vistvæns skipulags, sbr. vinnu við hönnun rammaskipulags fyrir Vífilsstaðaland. „Mikilvægi hringrásarhugsunar í rekstri og daglegu lífi er sífellt að verða þýðingarmeira og þar skorumst við ekki undan. Þannig leggjum við áherslu á vistferilshugsun og notum aðferðafræði vistferilsgreininga (LCA) til að meta hvar í virðiskeðjunni er hægt að draga úr umhverfisáhrifum vöru eða framkvæmda. Við viljum leggja okkar af mörkum við að miðla reynslunni hvað varðar innleiðingu hringrásarhugsunar til árangurs,“ segir Helga og bætir við að þann 28. október verður haldið EFLU-þing um hringrásarhagkerfið í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 sem er opið öllum meðan húsrými leyfir.

Vellíðan í vistvænum húsum

Við hönnun og endurbætur á byggingum leggur EFLA áherslu á heilsu og vellíðan í húsunum. „Þannig leggjum við mikla áherslu á góða innivist; að lýsing, loftgæði og hljóðvist sé góð. Einnig er hugað vel að hitastýringu og varmavist. Það er vandlega gætt að orkunýtingu, að hún sé mun betri en í hefðbundinni íslenskri viðmiðunarbyggingu. Byggingarefni eru valin af kostgæfni, og hönnun miðast við að draga úr loftslagsáhrifum þeirra,“ segir Helga.

„Við endurbætur á nýjum höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 voru vistvæn sjónarmið höfð að leiðarljósi í samræmi við BREEAM vottunarkerfið. Mikil áhersla var lögð á vandað efnisval, loftgæði, hljóðvist og birtu og að lágmarka umhverfisáhrif byggingarinnar yfir líftíma hennar. Þá var rík krafa gerð um umhverfisstjórnun á framkvæmdatíma og er húsnæðið í BREEAM vottunarferli en slík vottun inniheldur meðal annars að byggingar verða sjálfbærari en ella og eru kröfur til BREEAM vottaðra bygginga strangari en byggingarreglugerð.

A modern multi-story white building with balcony and parking lot with many cars parked

Vottunarferlið byggir á einkunnagjöf og fékk til dæmis Sjúkrahótel Landspítalans einkunnina excellent.

Góður árangur í lækkun kolefnisspors mannvirkja

Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri byggingasviðs, segir að EFLA stefni ávallt að því með hönnun sinni að draga úr kolefnisspori en byggingarefni valda 40% af kolefnisspori nýbyggingar. EFLA hefur náð góðum árangri í að lækka það kolefnisspor bygginga. „Með byggingu Svansvottaðra raðhúsa í Urriðaholti tókst okkur, ásamt Vistbyggð, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur útblæstri frá rúmlega 400 bensíndrifnum einkabílum í heilt ár, með því að velja vistvænni byggingarefni og auka orkunýtni. Tekið er tillit til þessarar hugmyndafræði með vaxandi hætti við endurgerð bygginga í dag." segir Ólafur.

EFLA í samstarfi við viðskiptavini sína er alltaf að ýta viðmiðunum í rétta átt og sem dæmi um það er vinningstillaga Regins fasteignafélags, Basalts arkitekta og EFLU í samkeppni C40 um grænar þróunarlóðir á vegum Reykjavíkurborgar. "Í hönnun byggingarinnar verður lögð mikil áhersla á að draga úr kolefnisspori og úrgangi ásamt áherslu á vellíðan notenda með góðri innivist og gróðurveggjum,“ bætir Ólafur við.

A row of modern, cubic, grey residential buildings

Urriðaholtsstræti 44-76 í Garðabæ er svansvottuð bygging.

Viðurkenndir matsmenn fyrir BREEAM

Hjá EFLU starfa viðurkenndir matsmenn fyrir BREEAM vottunarkerfið og meðal nýlegra verkefna varðandi vistvæna hönnun og vottun eru: Sjúkrahótel Landspítalans, stækkun gestastofu Þingvallaþjóðgarðs, Snæfellsstofa í Vatnajökulsþjóðgarði, meðferðakjarni nýs Landspítala, skrifstofubygging fyrir Alþingi, þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs, Hús íslenskra fræða, hjúkrunarheimili í Árborg, hjúkrunarheimili á Höfn, stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar Isavia, þjónustubygging í Kerlingarfjöllum og Norðurturninn við Smáralind.

Lausnir í átt að sjálfbæru samfélagi

Ólafur nefnir að samfélagsleg ábyrgð sé samofin starfsemi EFLU og allra leiða leitað til að skapa lausnir sem stuðla að sjálfbæru samfélagi. Í nýrri framtíðarsýn fyrirtækisins til ársins 2025 segir að EFLA verði fyrirmynd þekkingarfyrirtækja og brautryðjandi við úrlausn brýnna samfélagsverkefna.

Framtíðarsýnin gefur til kynna þungamiðju samfélagslegrar ábyrgðar í allri starfsemi EFLU. "Við viljum vera lykilþátttakandi í að breyta samfélögum í þeim tilgangi að bæta lífsgæði fólks, þróa mikilvæga innviði og stuðla að arðbærara atvinnulífi. Til að ná þessum árangri leggjum við mikla áherslu á virðisaukandi ráðgjöf, þjónustu og nýsköpun í þeim verkefnum sem unnið er að hverju sinni með sjálfbærni að leiðarljósi.“ segir Ólafur.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 19. október 2021.

Nánar um þjónustu EFLU á sviði vistvænnar hönnunar og BREEAM og hönnun mannvirkja.