Samfélagsleg ábyrgð samofin starfsemi EFLU

07.03.2019

Fréttir
A man and a women standing with a smile and posing for the camera

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, og Guðrún Jónsdóttir, hljóðverkfræðingur og situr í stjórn EFLU. Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson, Fréttablaðinu.

Skilgreint hlutverk EFLU er að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum viðskiptavina og efla samfélög. Fyrir vikið er samfélagsleg ábyrgð samofin tilgangi fyrirtækisins og hefur þessi leiðarvísir verið fyrirtækinu dýrmætur á vegferð þess á síðustu árum. Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, og Guðrún Jónsdóttir, hljóðverkfræðingur sem er jafnframt í stjórn fyrirtækisins, settust niður með blaðamanni og ræddu áherslur samfélagslegrar ábygðar.

Samfélagsleg

Viðtalið við Guðmund og Guðrúnu birtist í Fréttablaðinu 7. mars 2019 í sérblaði sem fjallaði um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. EFLA var brautryðjandi í samfélagslegri ábyrgð upp úr síðustu aldamótum með innleiðingu eigin innri stjórnkerfa í umhverfisstjórnun. Síðan þá hefur fyrirtækið unnið markvisst að ráðgjöf í umhverfis- og loftslagsmálum, t.d. við innleiðingu á umhverfisstjórnun hjá viðskiptavinum, í tengslum við nýtingu á sjálfbærri orku og í þróun umhverfisvænna lausna á fjölmörgum sviðum. „Loftslagsmálin eru nú mjög í brennidepli og öll fyrirtæki þurfa að vera þátttakendur í framtíðarlausnum á því sviði. Nú er svo komið að umhverfismál eru tekin til skoðunar í öllum verkefnum EFLU. En fyrirtækið er einnig að víkka sjóndeildarhringinn og vill skoða samfélagslega ábyrgð í víðari skilningi í öllum verkefnum, þar sem auk umhverfismála er litið til hagrænna, félagslegra og siðferðislegra þátta. Þetta mun EFLA gera í eigin starfsemi, en horfir einnig til þess að vera viðskiptavinum til stuðnings í þeirra framþróun eins og verið hefur raunin í umhverfismálunum til þessa.“ segir Guðrún Jónsdóttir.

Guðmundur segir samfélagslega ábyrgð, að mati EFLU, ganga í grunninn út á að starfrækja heilsteypt fyrirtæki sem skilar jákvæðum afrakstri til samfélagsins. „Fyrirtækið starfar um allt samfélagið á fjölþættum sviðum og hefur því mikil tækifæri til að láta gott af sér leiða. Má þar til viðbótar nefna að EFLA hefur verið í forystu um þróun á vistvænum byggingum, útreikningi á kolefnisspori mannvirkja og framkvæmda, þá höfum við verið með ráðgjöf í orkuskiptum og vistvænum samgöngum.“

EFLA hlaut viðurkenningu frá CreditInfo árið 2018 fyrir að vera framúrskarandi fyrirtæki í samfélagslegri ábygð og var það mikil viðurkenning fyrir okkur. „Sérhvert fyrirtæki þarf að svara því hvað samfélagsleg ábyrgð þýðir fyrir það, hvaða áherslur það velur, fyrir hvað það vill standa og hvar það getur lagt mest af mörkum. Spyrja spurninga á borð við: „til hvers er fyrirtækið til?“ og „hvers vegna á fyrirtækið rétt á sér í samfélaginu.“ bætir Guðmundur við.

Nánari upplýsingar um þjónustu EFLU á sviði samfélagslegrar ábyrgðar.

Lesa grein.