Fréttir


Fréttir

Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð, Creditinfo, Framúrskarandi, Viðurkenning

15.11.2018

EFLU verkfræðistofu var veitt viðurkenning CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki og hefur verið á þeim lista frá upphafi. Þess utan viðurkenndi Creditinfo sérstaklega tvö fyrirtæki, annars vegar fyrir framúrskarandi nýsköpun og hins vegar fyrir framúrskarandi samfélagslega ábyrgð. EFLA varð í ár fyrir valinu sem framúrskarandi fyrirtæki í samfélagslegri ábyrgð. 

  • Framúrskarandi árangur
    Forsvarsmenn EFLU ásamt fulltrúum CreditInfo og ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Á hverju ári gefur Creditinfo út árlega fjárhagslegt styrk- og stöðugleikamat á fyrirtækjum landsins sem byggist á ströngum kröfum um heilbrigðan rekstur í þrjú ár í röð. 

Samfélagsábyrgð er hluti af skilgreindu hlutverki EFLU og sett fram með eftirfarandi hætti „EFLA kemur fram með lausnir sem stuðla að framförum og efla samfélagið“. Í starfsemi sinni kemur EFLA að  að uppbyggingu, þróun og nýjungum á fjölbreyttum sviðum samfélagsins. EFLA er þekkingarfyrirtæki sem veitir sérfræðiráðgjöf með um 400 starfsmenn á Íslandi og erlendis. Starfsfólk okkar býr yfir mikilli þekkingu og reynslu í atvinnulífi og samfélagsgerð. Okkar markmið er að koma þekkingu okkar  í jákvæðan farveg og stuðla að framförum  til aukinnar verðmætasköpunar og hagsbóta fyrir samfélagið. Virk verkefni EFLU á hverjum tíma eru um 1400 talsins og geta starfsmenn því víða lagt af mörkum til aukinnar samfélagsábyrgðar.

Samfélagsleg sjónarmið og umhverfismál samofin starfseminni

Í rökstuðningi dómnefndar við val á EFLU sem framúrskarandi fyrirtæki í samfélagslegri ábyrgð kemur eftirfarandi fram:

  • Samfélagsábyrgð er hluti af skilgreindu hlutverki félagsins og sett fram þannig að hlutverkið sé að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum og efla samfélagið. Samfélagsábyrgð er því orðin hluti af viðskiptamódeli fyrirtækisins þar sem lögð er áhersla á vistvæna nálgun í verkefnum. Telja má fyrirtækið til brautryðjanda á Íslandi á sviði vistferilsgreininga og útreikninga á vistspori og kolefnisspori fyrir vörur og þjónustu. Ávallt er tekið tillit til umhverfis- og öryggismála og annarra samfélagslegra sjónarmiða í verkefnum fyrirtækisins. 

  • Jafnframt hafa verið tekin skref til að hraða breytingum í átt að aukinni sjálfbærni í rekstri og þjónustu fyrirtækisins þar sem stuðst er við fjölþjóðleg viðmið, stjórnunarstaðla og alþjóðlega sáttmála.

  • Fyrirtækið sýnir mikinn metnað og markviss vinnubrögð þegar kemur að umhverfis­málum. Fyrirtækið hefur sett sér skammtímamarkmið til 2020 og langtímamarkmið til 2030 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtækið styðst við grænt bókhald og fylgist þannig markvisst með árangri og áskorunum. Þrátt fyrir aukna óbeina losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára, vegna aukins umfangs verkefna, náði fyrirtækið að minnka beina losun sína um 41% á milli ára miðað við stöðugildi og öll losun er kolefnisjöfnuð þannig að fyrirtækið er í dag kolefnishlutlaust.

  • Hlúð er vel að mannauði fyrirtækisins, starfsánægja mælist mikil en fyrirtækið hefur sett sér markmið um að gera enn betur. Þá eru góð merki um að tekist hafi að innleiða ábyrga hugsun gagnvart umhverfinu og samfélaginu í menningu fyrirtækisins. Sem dæmi tókst með samstilltu átaki að minnka notkun pappírs á hvert stöðugildi um 20% á milli ára, heildarmagn óflokkaðs úrgangs vegna rekstrar í höfuðstöðvum minnkaði um 50% og endurvinnsluhlutfall er komið upp í 80%.

  • Fyrirtækið er öflugt í samfélaginu, m.a. með því að styðja við rannsóknir, miðla þekkingu og efla starfsfólk í nýsköpun og þróun.

Aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna

EFLA er virkur þátttakandi í ýmsum faglegum hópum og félögum sem lúta með einum eða öðrum hætti að samfélagslegri ábyrgð. EFLA er jafnframt aðili að Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð og vinnur að 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Einnig staðfesti EFLA loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins ásamt um 100 öðrum íslenskum fyrirtækjum. EFLA heldur grænt bókhald og gefur út árlega Samfélagsskýrslu þar sem markmiðum og árangri í starfseminni er lýst. Einnig starfrækir EFLA samfélagssjóð til styrktar góðum málefnum. Öll þessi umgjörð er fyrirtækinu mikilvæg og auðveldar yfirsýn og forgangsröðun.

EFLA er mjög stolt af árangri fyrirtækins og þeirri viðurkenningu að teljast framúrskarandi fyrirtæki sem hefur náð  framúrskarandi árangri í samfélagslegri ábyrgð. Þessi árangur næst með frábæru starfsfólki fyrirtækisins og traustu samstarfi við okkar góðu viðskiptavini.

Viðtal við Guðmund Þorbjörnsson í Morgunblaðinu.

Framúrskarandi árangurGuðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, flutti ræðu á verðlaunaafhendingu CreditInfo.