Umhverfismál rædd á loftslagsfundi

12.12.2017

Fréttir
Fjallendi með snjóbreiðum á Íslandi, texti þar sem stendur 'Vantar mynd'

Reykjavíkurborg og Festa héldu loftslagsfund í Hörpu föstudaginn 8. desember. Þetta er í annað sinn sem slíkur fundur var haldinn en áætlað er að viðburðurinn fari fram árlega.

Umhverfismál rædd á loftslagsfundi

Á fundinum var meðal annars rætt um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum út frá Parísarsáttmálanum og hversu mikilvægt það væri fyrir íslensk fyrirtæki að setja sér mælanleg umhverfismarkmið.

Vistferilsgreining á íslensku byggingarefni

EFLA verkfræðistofa tók virkan þátt í fundinum, var með kynningarbás á svæðinu og héldu starfsmenn örfyrirlestur um loftslagsmarkmið EFLU og þær lausnir sem fyrirtækið veitir í umhverfismálum. Þá var sagt frá fyrstu vistferilsgreiningunni sem unnin hefur verið fyrir íslenskt byggingarefni, en EFLA sá um að meta kolefnisspor og aðra umhverfisáhrifaþætti steinullar framleidda hjá Steinull hf á Sauðárkróki. Niðurstöðurnar sýndu m.a. að steinullin hefur að minnsta kosti helmingi lægra kolefnisspor en sambærileg erlend steinull.

Samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál eru órjúfanlegur þáttur af starfsemi EFLU og er eitt af megin stefnumiðum EFLU að taka ávallt tillit til umhverfismála við hönnun og ráðgjafarvinnu fyrirtækisins þar sem slíkt er tæknilega og fjárhagslega mögulegt.

Eigin árangur EFLU

EFLA hefur skýr umhverfismarkmið í rekstrinum, vinnur jafnt og þétt að minna kolefnisspori félagsins og hefur sett sér markmið um síaukið endurvinnsluhlutfall úrgangs.