Orkuskiptin eru eitt af stóru hagsmunamálum sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Þannig er stefnt að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku sem hefur jákvæð áhrif á loftslagsmál og losun gróðurhúsalofttegunda. EFLA hefur fylgst vel með þeirri þróun og tekið þátt í umræðunni um orkuskiptin. Eitt af því sem hefur verið skoðað sérstaklega eru möguleikar vetnis sem orkubera, en mikill meðbyr er í alþjóðasamfélaginu að nýta vetni sem eldsneyti.
Miklir möguleikar á notkun vetnis sem orkubera
Jón Heiðar Ríkharðsson og Stefán Þór Kristinsson sem starfa á þróunarsviði EFLU hafa unnið að verkefnum sem tengjast orkuskiptunum, sér í lagi varðandi framleiðslu og notkun á vetni sem orkubera en á því sviði gæti Ísland gegnt mikilvægu hlutverki. Þeir settust niður með blaðamanni Fréttablaðsins og fóru yfir stöðu vetnis sem orkubera og hvaða hlutverki Ísland gæti gegnt í þeirri þróun. Meðal þess sem kom fram var að mikil tækifæri lægju í þróun og notkun vetnis sem orkubera á heimsvísu og segir Jón Heiðar „G20 ríkin funduðu 28. júní síðastliðinn og birtu skýrslu sem fjallar um stöðu og framtíð vetnis í heiminum. Alþjóðaorkumálastofnunin vann skýrsluna og í henni kemur fram að meðbyr með vetni í heiminum er meiri í dag en áður hefur verið.“
Mikilvægt að auka orkuöryggi
Japan og nágrannalönd sem horfa á vetni sem framtíðarorkubera til að leysa af hólmi notkun á kjarnorku, kolum og jarðgasi hafa markað stefnu í þeim efnum þar sem Ástralía væri framleiðandi orkunnar. Miklar vegalengdir í vöruflutningum innan Bandaríkjanna kalla hins vegar á þróun vetnislausna fyrir stóra flutningabíla. Þá hefur raforkumarkaðurinn í Evrópu ýtt undir framleiðslu og notkun vetnis til orkumiðlunar og sveiflujöfnunar. „Þannig gætu skapast tækifæri fyrir Ísland að framleiða og flytja út vetni. Þetta mun hafa gífurleg áhrif á vetnisframleiðslu, meðhöndlun og flutning vetnis og ekki síður verð á raforku og vetni á heimsvísu.“ segir Stefán um þróun og tækifæri framtíðarinnar sem eru skammt undan.
Þessi þróun skiptir ekki síst máli hvað varðar orkuöryggi, sjálfbærni, nýtingu hliðarafurða vetnis auk þess að vera umhverfisvænni valkostur samanborið við jarðefnaeldsneytis.
Mikil tækifæri á Íslandi
Aðspurður um tækifæri og aðkomu Íslands að vetnisframleiðslu segir Jón Heiðar að í dag er mögulegt að framleiða vetni úr endurnýjanlegri orku með ódýrum hætti, en þó fyrst og fremst með rafgreiningu, t.d. í iðngörðum við hafnir. „Í dag eru þessar leiðir til staðar sem eru hagkvæmari en eldri leiðir. Fyrir utan það er nýtingin í framleiðsluferlum vetnis að stórbatna. Það gerir það að verkum að verð á vetni verður samkeppnishæft samanborið við jarðefnaeldsneyti fyrir stærri farartæki og þá sérstaklega skipaflotann.“ Síðan má nefna til viðbótar vetnisframleiðslu beintengda við orkuver og svo má vinna vetni úr metangasi þar sem lífrænn úrgangur yrði meðhöndlaður. „Það er hægt að breyta metani samkvæmt þekktum ferlum í vetni og koltvísýring,“ segir Jón. Koltvísýringinn væri svo t.d. hægt að nota í gróðurhús eða þörungarækt.
Sama hvaða leið er farin af þeim sem eru nefndar hér að ofan, þá gera þær mönnum kleift að framleiða vetni úr endurnýjanlegri orku með ódýrum hætti.
Víðtæk ráðgjöf á sviði orkumála
EFLA veitir víðtæka ráðgjöf á sviði orkumala og fylgist vel með þróun á orkumarkaði, veitir alhliða ráðgjöf varðandi allt frá hönnun orkumannvirkja, orkuflutningskerfa, landtengingar skipa til hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla.
Viðtalið birtist í Fréttablaðinu 12. júlí 2019 í sérblaði um orku Íslands.