Græn fjármögnun

Græn skuldabréf, Skuldabréf, Græn verkefni

Í dag er gerð sú krafa til stofnana og fyrirtækja að bæði eigin starfsemi og ráðstöfun fjármuna sé hagað með þeim hætti að stutt sé við sjálfbæra þróun, ábyrga notkun auðlinda og að lagt sé af mörkum til loftslagsmála. Sérfræðingar EFLU aðstoða útgefendur grænna skuldabréfa að skilgreina verklag og draga saman nauðsynlegar upplýsingar varðandi græn verkefni.

Tengiliðir

Svokölluð græn skuldabréf hafa á undanförnum árum skapað tækifæri fyrir opinbera aðila, fjármálastofnanir og fyrirtæki til þess að ávaxta fé sitt með ábyrgum hætti eða fjármagna verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Samkvæmt alþjóðasamtökum aðila á verðbréfamarkaði, ICMA (International Capital Market Association), eru græn skuldabréf hvers kyns skuldabréfagerningar þar sem fjármunum er varið til að fjármagna eða endurfjármagna ný eða fyrirliggjandi vistvæn verkefni, að hluta eða að fullu, og sem samræmast fjórum grunnstoðum viðmiða um græn skuldabréf (e. green bond principles - GBP).

Söluandvirði grænna skuldabréfa skal varið til umhverfisvænna verkefna. Sem dæmi um slík verkefni má nefna uppbyggingu vistvænna innviða, svo sem uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu, bætta orkunýtingu, mengunarvarnir, úrgangsstjórnun, vistvænar samgöngur, sjálfbærar vörur eða framleiðsluferli, vistvænar byggingar og hvers konar tækni eða lausnir sem hafa jákvæð umhverfisáhrif í för með sér. 

Útgefendur grænna skuldabréfa geta verið opinberir aðilar, t.d. sveitarfélög og einnig fyrirtæki og fjármálastofnanir. Skilgreina þarf ákveðið verklag (grænan ramma) fyrir útgáfu grænna skuldabréfa og skila upplýsingum til óháðs þriðja aðila sem tekur út verklagið. 

Samfélagsábyrgð og umhverfisvernd að leiðarljósi

Græn skuldabréf eru í dag vænlegur kostur sem gerir ekki eingöngu fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum kleift að fjármagna verkefnin sín, heldur einnig fjárfestum tækifæri til að njóta eðlilegrar ávöxtunar fjármagns með samfélagsábyrgð og umhverfisvernd að leiðarljósi. 

Fjölbreytt ráðgjöf

EFLA hefur áratugareynslu af víðtækri umhverfisráðgjöf, frá innleiðingu umhverfisvottunar til aðstoðar við grænt bókhald og kolefnisútreikninga. EFLA er jafnframt brautryðjandi í umhverfisvottunum bygginga hér á landi og hefur annast BREEAM vottun fjölda mannvirkja. 

Sérfræðingar EFLU geta aðstoðað útgefendur grænna skuldabréfa við að skilgreina grænan ramma þeirra verkefna sem skuldabréfið fjármagnar, í samræmi við viðmið Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) - Green Bond Principles - og ráðgjöf varðandi ýmis konar umhverfisstjórnun og vottanir fyrir vistvænan rekstur og uppbyggingu þ.m.t. umhverfisvottanir fyrir nýbyggingar og núverandi byggingar.

Tengd þjónusta


Var efnið hjálplegt? Nei