Á árlegri ráðstefnu um skipulagsmál sveitarfélaga hélt fulltrúi EFLU erindi
sem fjallaði um stafrænt skipulag svæðis- og aðalskipulagsáætlana.
Skipulagsdagurinn 2019 fór fram 8. nóvember í Hörpu en að ráðstefnunni standa Skipulagsstofnun í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Fulltrúar frá flestum sveitarfélögum landsins voru þar samankomnir til að ræða málefni tengd skipulagsmálum. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Skipulag um framtíðina, samspil skipulags við aðra áætlanagerð um byggð, samgöngur og nýtingu lands“.
Betri heildaryfirsýn fyrir allt landið
Gréta Hlín Sveinsdóttir, sérfræðingur í skipulagi og landupplýsingum hjá EFLU, hélt erindi um stafrænt skipulag en samkvæmt 46. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 skulu svæðis- og aðalskipulagsáætlanir unnar og skilað á stafrænu formi til Skipulagsstofnunar frá og með 1. janúar 2020. Um er að ræða umfangsmikla breytingu sem felur í sér nýja nálgun við svæðis- og aðalskipulagsgerð þar sem vinna er færð yfir í landupplýsingakerfi.
Í erindinu benti Gréta á að með stafrænu skipulagi fengist betri heildaryfirsýn yfir skipulagsgögn fyrir allt landið í heild, óháð landfræðilegum mörkum sveitarfélaga, þar sem allir skipulagsuppdrættir eru vistaðir miðlægt í landfræðilegan gagnagrunn og þannig fæst mun betra utanumhald um þær verðmætu og mikilvægu upplýsingar sem skipulagið inniheldur. Með samræmdum vinnubrögðum við gerð stafræns skipulags verða til mun betri og samræmd gögn sem unnt er að byggja á í þágu samfélagsins og auðveldara verður að bregðast við breyttum aðstæðum svo sem sameiningu sveitarfélaga og endurskoðun aðalskipulags. Betri samræmd landupplýsingagögn sem ná yfir allt landið draga úr kostnaði og spara tíma við mat og greiningu á aðstæðum, við gerð skipulags sem og ýmissa annarra áætlana.
Yfirgripsmikil og sérhæfð þekking
EFLA hefur yfirgripsmikla þekkingu á sviði landupplýsinga og á skipulagsmálum sveitarfélaga og hefur unnið með fjölmörgum þeirra t.d. við gerð aðalskipulags, deiliskipulags og margt fleira. Einnig býr starfsfólk EFLU yfir mikilli reynslu á sviði stafræns skipulags og nýtir landupplýsingakerfi við ýmis verkefni er varða skipulag og forsendugreiningar fyrir skipulag. Þar á meðal við staðarval og stefnumótun vegna nýtingar á vindorku ásamt staðar- og kostavali.