Vind- og straumfræðigreiningar

Sérfræðiteymi EFLU í vindgreiningum hefur víðtæka reynslu í greiningum á veðurfarsgögnum og hermunum með reiknilíkönum sem gerir okkur kleift að skila sérsniðnum lausnum sem styðja við þarfir viðskiptavina okkar.

Blár himinn og skýjafar

Hagræðing vindskilyrða

EFLA veitir alhliða þjónustu við vind- og straumfræðigreiningar. Hvort sem markmiðið er að kortleggja vindafar fyrir valkostagreiningu, hagræða hönnun mannvirkja eða samgönguinnviða fyrir vindi, stuðla að öruggri og góðri vindvist í borgarrýmum, tryggja ásættanlega dreifingu á loftborinni mengun eða auka rekstraröryggi og skilvirkni í verkefnum.

Með réttu verkfærunum og sérfræðiþekkingu má leggja áreiðanlegt mat á vinda- og veðurfar fyrir margvísleg verkefni.

EFLA notast við söguleg mæligögn, háupplausna veðurgagnasett, vindflæðislíkön, tölfræðilegar aðferðir og gervigreind til að greina veðurfar. Þannig er hægt að skilja þróun og mynstur í veðurfari og spá fyrir um tíðni sjaldgæfra atvika út frá samspili veðurfars og flókins landslags og umhverfis.

Með tölulegum straumfræðihermunum (CFD) má reikna staðbundið vindflæði á þrívíðu reiknineti í kringum landslag og mannvirki. Þannig fást nákvæmar upplýsingar um m.a. vindhraða, vindátt, hitastig og þrýsting fyrir mismunandi forsendur. Þessar upplýsingar nýtast til að mynda við hönnun á mannvirkjum, skipulagi og samgöngum, en einnig við greiningar á dreifingu á loftborinni mengun frá umferð eða iðnaði og við rekstrarlegar ákvarðanir.

Sérsniðnar lausnir

Sérfræðingar EFLU hafa víðtæka reynslu þegar kemur að greiningu á vindafari og eru greiningar sérsniðnar að þörfum verkefnisins. Sérþekking vindgreiningarteymis EFLU nær yfir breitt svið viðfangsefna á borð við greiningar á fjölfasa flæði í lögnum og vélbúnaði, súrefnismettun í eldiskerjum, staðbundið vindafar og vindþægindi kringum mannvirki, vindafar í flóknu landslagi, greiningu aftakavinda, veðurlíkön og úrvinnslu veðurmælinga.

Innan EFLU eru að auki sérfræðingar á fjölmörgum sviðum, s.s. skipulagsmálum, veghönnun, hafnarverkfræði, raflínuhönnun o.fl. sem vinna náið með vindgreiningarteymi að afmörkun, skipulagningu og túlkun vindgreininga.

Meðal þjónustusviða eru:

  • Almenn greining á vindafari út frá sögulegum veðurmælingum og reiknuðum veðurgögnum úr háupplausnar veðurlíkani.
  • Greining á vindafari út frá reiknilíkönum sem taka tillit til landslags og umhverfis.
  • Greiningar á staðbundnu vind- og hitaflæði í kringum byggingar og önnur mannvirki.
  • Greining á árlegum eða árstíðarbundnum áhrifum vinds á notendur (e: pedestrian wind comfort) út frá tölfræðilegum vindgögnum og vindþæginda viðmiðum. Þannig er hægt að leggja mat á öryggi og gæði útisvæða með tilliti til vinds og annarra veðurfarsþátta (t.d. sólargeislun og lofthita).
  • Gerð tillagna að úrbótum og mótvægisaðgerðum við núverandi byggingar eða skipulög.

Niðurstaða

Með greiningum á vindafari sem eru sérsniðnar að þörfum verkefna og viðskiptavina er hægt að auka gæði og virði í margvíslegum verkefnum og koma í veg fyrir ýmiskonar vandamál sem geta verið kostnaðarsöm og haft neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag.

Áreiðanlegt mat á sögulegu vinda- og veðurfari getur verið ómissandi í frum- og valkostagreiningum á byggingum, samgönguinnviðum og orkuinnviðum, sem og í rekstrarlegum ákvörðunum. Einnig er það grunnforsenda við aðrar verkfræðigreiningar, t.d. á dreifingu á loftborinni mengun eða lykt frá umferð, iðnaði eða landbúnaði.

Hermun á staðbundnu vindafari á smærri skala eykur gæði í hönnun mannvirkja og skipulags. Þannig er hægt að skapa betri vindskilyrði umhverfis byggingar, koma í veg fyrir óæskilega eða hættulega vindstrengi, tryggja öryggi og notkun innganga og hanna hágæða útisvæði. Einnig nýtast þær greiningar í hönnun á skilvirkni náttúrulegrar loftræsingar (bygginga, vegganga og bílakjallara), til að ákvarða staðsetningu á ýmsum stýribúnaði eða til að koma í veg fyrir vindgnauð.

Hafðu samband við sérfræðinga EFLU