Hljómkerfahönnun
Hljómkerfið, Hljóðkerfi, Hljómburður
EFLA sinnir fjölmörgum verkefnum á sviði hljóðvistar og er hljómkerfahönnun einn af þjónustuflokkunum.
Tengiliður
Guðrún Jónsdóttir Hljóðverkfræðingur M.Sc. Sími: +354 412 6094 / +354 665 6094 Netfang: gudrun.jonsdottir@efla.is Reykjavík
Góður hljómburður er einn af þeim þáttum sem hafa mikil áhrif á skilvirkni fundar- og ráðstefnusala og í öðrum rýmum þar sem mikilvægt er að talað mál berist rétt og vel. Þá hefur hljómburður tónlistarrýma mikil áhrif á notagildi þeirra.
Öflugt hljóðvistarteymi EFLU
Góður hljómburður í byggingum er gulls ígildi og geta hljóðsérfræðingar EFLU aðstoðað til að ná framúrskarandi hljóðvist með sannreyndum aðferðum.
Þjónusta tengd hljóðvist
Öflugt teymi EFLU í hljóðvistarmálum kemur að margvíslegum verkefnum er varða hljóðvist, hávaða, hljómburð, titring, hljóðkerfi og flestu sem tengist greiningu og stjórnun hljóðs og hávaða.
Þjónustan felst m.a. í almennri ráðgjöf, mælingum og hönnun.
Undanfarin ár hafa starfsmennirnir aflað sér verulegrar þekkingar og reynslu á þessu sviði og eru í fremstu röð meðal hljóðsérfræðinga á Íslandi og á alþjóðlega vísu.
EFLA hefur yfir að ráða hágæða hugbúnaði til útreikninga á hinum ýmsu þáttum hljóðvistar auk fyrsta flokks mælitækja.
Algengar spurningar og svör
Hvað er hljóðkerfi?
Þegar rætt er um hljóðkerfi er átt við allt frá hljómflutningstækjum fyrir stofuna heima yfir í minni hljóðkerfi, t.d. fyrir kennslustofur og veitingastaði, yfir í stærðarinnar hljóðkerfi fyrir tónleikahallir – og allt þar í milli. Þegar velja á hljóðkerfi, stór sem smá, er góður kostur fyrir verkkaupa að fá óháða ráðgjöf um val á búnaði til að tryggja hagkvæmni og gæði.
Uppsetning hljóðkerfis hefur mikið að segja um hljóðgæðin sem fást úr kerfinu og er þar að mörgu að hyggja. Hljóðvistarsérfræðingar EFLU hafa mikla reynslu og þekkingu á hljóðkerfum og geta aðstoðað við þarfagreiningu, við val á hentugum búnaði og hannað viðeigandi uppsetningu hljóðkerfis.
Hvað eru líkanútreikningar?
Í krefjandi hljóðkerfaverkefnum er notast við líkanútreikninga með EASE hugbúnaðinum, sem er fullkominn hugbúnaður til hljóðkerfahermunar. Í hugbúnaðinum er notast við þrívíddarlíkan af rýminu sem hljóðkerfið kemur til með að vera sett í og nýtist hugbúnaðurinn við val á hentugum búnaði og við bestun (e. optmization) uppsetningar.
Með EASE fylgir gagnasafn yfir tíðnisvörun og stefnuvirkni með yfir 3000 hátalaragerðum frá meira en 100 framleiðendum og er gagnasafnið í sífelldri uppfærslu. Með notkun EASE er því hægt að velja réttu hátalarana fyrir hvaða tilvik sem er og tryggja að kerfið sé þannig uppsett að fyrirfram skilgreindum gæðum sé náð.
Hvernig er farsælast að velja hentug hljóðkerfi?
Þarfir notenda eru fjölbreyttar og úrvalið af hljóðkerfum er gríðarlegt. Góð þarfagreining getur aðstoðað við val og útfærslu á hentugu hljóðkerfi. Þá er nauðsynlegt að horfa til samspils hljóðkerfis og hljómburðar rýmisins sem kerfið er staðsett í sem og að tekið sé tillit til bakgrunnshávaða á staðnum.
Hægt er að hafa mikil áhrif á það hvernig hljóðkerfi geisla út hljóði eftir því hvernig þeim er stillt upp. Með notkun á DSP merkjavinnslu má besta (e. optimize) uppsetningu hljóðkerfis þannig að sem mest hljóðgæði fáist.
Sum hljóðkerfi hafa fyrst og fremst það markmið að koma skilaboðum áleiðis, t.d. kallkerfi. Í þeim tilfellum er mikilvægast að tryggja fullnægjandi talgreinileika og getur EASE hugbúnaðurinn reiknað út talgreinileikastuðul (STI – speech transmission index) fyrir gefið hljóðkerfi, rými og bakgrunnshávaða í rýminu.
Önnur hljóðkerfi eru hugsuð fyrir bakgrunnstónlist og í þeim tilfellum er m.a. mikilvægt að tryggt sé að hljóðstyrkur sé jafn um rýmið svo tónlistin sé ekki of há á sumum stöðum í rýminu og of lág annars staðar. Sé kerfið hugsað fyrir tónlistarflutning á háum hljóðstyrk, t.d. fyrir lifandi tónlist, er mikilvægt að tryggja jafna tíðnisvörun og hljóðstyrksdreifingu um allt áhorfendasvæðið og lágmörkun hljóðgjafar í aðrar áttir en að áhorfendasvæðinu. Með slíku móti er tryggt að upplifun allra áhorfenda sé góð.