Viðburðir
EFLA tók þátt í fjölda viðburða á árinu 2023
Opinn fundur Landsvirkjunar
Kristinn Arnar Ormsson, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, og Kolbrún Reinholdsdóttir, sem leiðir teymi orkumálaráðgjafar EFLU, tóku í febrúar þátt í opnum fundi Landsvirkjunar um aflstöðu raforkukerfisins og áhrif á þróun vindorku.
Hringborð Hringrásar
Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá EFLU, stýrði í febrúar vinnustofu Hringborðs Hringrásar um innleiðingu hringrásar í byggingariðnaði. Þar var einnig Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, sem er verkefnisstýra Hringrásarverkefnisins.
Framadagar
EFLA var á Framadögum sem voru haldnir í Háskólanum í Reykjavík í febrúar. Þar hittum við fyrir ungt námsfólk sem vildi kynna sér fyrirtækið og starfsmöguleika, hvort sem var til framtíðar eða vegna sumarstarfa.
Konur í orkumálum
Í mars mættu Konur í orkumálum í heimsókn til EFLU á Lyngháls í Reykjavík þar sem haldnar voru áhugaverðar kynningar og sköpuðust skemmtilegar umræður. Fundarstjóri var Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri orkusviðs EFLU. Sæmundur Sæmundsson forstjóri EFLU opnaði viðburðinn með stuttu erindi um félagið.
Viðburður Orkuveitu Reykjavíkur á Nýsköpunarviku
Reynir Sævarsson, fyrirliði nýsköpunar og þróunar hjá EFLU, tók þátt í pallborðsumræðum um fráveitu og hringrásarhagkerfið á viðburði Orkuveitu Reykjavíkur. Viðburðurinn var hluti af dagskrá Nýsköpunarviku sem fór fram í maí.
Fagþing Samorku
Fulltrúar EFLU tóku þátt í fagþingi Samorku í hita-, vatns- og fráveitum sem haldið var á Selfossi í maí. Snærós Axelsdóttir, Reynir Snorrason, Elín Inga Knútsdóttir og Eva Yngvadóttir fluttu öll erindi á þinginu.
Ráðstefnur um orkumál
Birta Kristín Helgadóttir, sviðsstjóri á orkusviði EFLU, var þátttakandi á tveimur ráðstefnum með stuttu millibili í júní. Sú fyrri, Germany-Iceland Clean Energy Summit, einblíndi á hreina orku í Þýskalandi og á Íslandi. Sú seinni var haldin í íslenska sendiráðinu í Varsjá í Póllandi og var Piotr Gburczyk, framkvæmdastjóri EFLU í Póllandi, einnig meðal þátttakenda. Umfjöllunarefnið var orkumál.
Nor-Shipping
Dr. Majid Eskafi, sérfræðingur í hafnarverkfræði hjá EFLU, tók þátt í Nor-Shipping 2023 sem haldin var í Lillestrøm í Noregi snemma í júní. Nor-Shipping er ráðstefna þar sem aðilar í fararbroddi í hafnarverkefnum, sjávarútvegi og vöruflutningum um alla heim taka þátt og halda fyrirlestra. Á viðburðinum sat Dr. Eskafi fundi með fulltrúum fyrirtækja í greininni og miðlaði upplýsingum um lausnir EFLU á alþjóðlegum vettvangi til að auka tengslanet fyrirtækisins og styrkja samstarfið við erlend fyrirtæki sem stefna að framkvæmd verkefna og viðskiptaþróun á Íslandi.
Umhverfisvænni mannvirkjaiðnaður
Sérfræðingar EFLU mættu á stöðufund um vistvæna þróun í mannvirkjagerð á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð í ágúst. Alexandra Kjeld, ritari og varaformaður Grænni byggðar og umhverfisverkfræðingur á samfélagssviði EFLU, tók þátt í pallborðsumræðum um vistvænar byggingarvörur. Þá stýrði Dr. Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, orku- og umhverfisfræðingur á samfélagssviði EFLU, pallborðsumræðum sem kölluðust Hreyfiafl til framtíðar.
Að auki var haldið rafrænt málþing um stöðu vistvænnar innviðauppbyggingar í október á vegum Grænni byggðar og norrænna systursamtaka frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Viðburðurinn var haldinn á World Green Building Week 2023, þegar fjölmargir viðburðir í þessum málaflokki áttu sér stað víðsvegar um heiminn. Alexandra Kjeld, hélt þar erindi sem fjallaði um núverandi sjálfbærnistöðu innviða hérlendis.
Heimsókn HÍ til EFLU
Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU, var kennurum og stjórnendum frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands boðið á morgunfund á Lynghálsi í september. Tilgangur fundarins var að ræða samstarfið milli Háskólans og EFLU, hvernig mætti auka það enn frekar og eins að skoða þarfir atvinnulífsins og fyrirtækja á borð við EFLU til framtíðar með tilliti til menntunar.
Arctic Circle
EFLA stóð að málþinginu Shipping Toward the Green Future sem fjallaði um orkuskipti í höfnum á alþjóðlegu ráðstefnunni Arctic Circle eða Hringborð Norðurslóða í október
Fyrirlesarar á viðburðinum voru Majid Eskafi og Jón Heiðar Ríkharðsson frá EFLU, auk Þorsteins Mássonar frá Bláma, Hilmars Péturs Valgarðssonar frá Eimskipafélagi Íslands og Robert Howe frá Bremenports í Þýskalandi. Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur hjá EFLU, var málstofustjóri. Fullt var út úr dyrum á málþinginu og líflegar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna.
Menningararfur í sýndarheimum
Í október fór fram málþingið Menningararfur í sýndarheimum í Veröld, húsi Vigdísar. Þröstur Thor Bragason, miðlunarfræðingur hjá EFLU, hélt erindi um verkefnið Stafrænar styttur sem var unnið í samstarfi við safn Einars Jónssonar.
Kvennafrídagurinn 24. október
EFLA tók þátt í kvennafrídeginum 24. október með því að veita kvenkyns starfsfólki frí án launaskerðingar. Jafnframt hvatti félagið allar konur og kvár til að leggja niður störf og mótmæla þannig kynbundnu misrétti. Hjá EFLU voru ríflega 32% starfsfólks konur í október 2023, alls 141 talsins.
Málþing EFLU um orkuskipti í höfnum
Í tilefni af 50 ára afmæli EFLU bauð félagið hagsmunaaðilum á málþing um orkuskipti í höfnum. Málþingið bar titilinn Siglum í átt að grænni framtíð, fór fram í nóvember í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4 en var jafnframt streymt á aðrar starfsstöðvar EFLU um landið. Með málþinginu vildi EFLA kynna sína sýn og eiga samtal við hagsmunaaðila um þetta mikilvæga verkefni. Hafnir skipta höfuðmáli þegar kemur að alþjóðlegum flutningakerfum og rafvæðing hafna myndi draga úr kolefnislosun, bæta hafnarumhverfi til muna og spilar stóran þátt í að Ísland nái kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.
Skúli B. Jónsson, sviðsstjóri iðnaðarsviðs EFLU, opnaði málþingið og í kjölfarið fluttu þrír sérfræðingar EFLU erindi. Majid Eskafi hafnarverkfræðingur fjallaði um mikilvægi hafna við að ná loftslagsmarkmiðum, Jón Heiðar Ríkharðsson vélarverkfræðingur ræddi hlutverk hafna og hafnarsvæða sem orkuinnviði og hvernig það hlutverk kemur til með að breytast með orkuskiptum og að lokum tók Atli Már Ágústsson rafmagnstæknifræðingur til máls og skoðaði framtíðaráskoranir í rafvæðingu íslenskra hafna.
Sjávarútvegssráðstefnan 2023
EFLA tók þátt í að skipuleggja málstofu á Sjávarútvegsráðstefnunni 2023 sem fór fram í nóvember. Málstofan bar heitið Upplýsingagjöf um sjálfbærni – hvar liggja tækifærin. Helga J. Bjarnadóttir, sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU, hélt erindi sem fjallaði um loftslagsáhrif matvælaframleiðslu og kolefnisspor mismunandi matvæla undir titlinum Kolefnisspor matarins – hvar liggja tækifærin?
Vísindaferðir
EFLA bauð nemendum frá verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og nemendum í Iðn-, tækni- og verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík í heimsókn í Vísindaferð að Lynghálsi í nóvember. Þar kynntu byggingar-, orku-, samélags- og iðnaðarsvið EFLU störf sín og verkefni auk þess sem boðið var upp á göngutúr um húsið og Öflungur starfsmannafélag EFLU sagði frá sinni starfsemi.
Þar að auki hittu sviðsstjórar EFLU nemendur í verkfræði í Danmörku, Svíþjóð og Noregi á sambærilegri kynningu. Markmiðið með viðburðunum var að kynna EFLU fyrir framtíðarstarfsfólki og mögulegu sumarfólki.
Hringrásarveggurinn á stofnfundi Hringvangs
Elín Þórólfsdóttir, arkitekt og umhverfis- og auðlindafræðingur á samfélagssviði EFLU, kynnti Hringrásarvegginn, sem er samstarfsverkefni EFLU, Basalt arkitekta og Jáverks, á stofnfundi Hringvangs í desember. Markmiðið með Hringrásarveggnum er að hanna lausn að innivegg sem er framleiddur úr hringrásarefnum eða úrgangstraumum og hægt verður að kaupa vegginn tilbúinn úti í búð. Hringvangur er sjálfstæður vettvangur fyrir samskipti um hringrásarhagerfi í byggingariðnaði. Með Hringvangi er ætlunin að efla tengslanet og auka samvinnu milli ólíkra hagsmunaaðila í byggingariðnaðinum.
Umfjöllun
Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, var í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í janúar. Þar fræddi hann hlustendur þáttarins um lífmassa í heiminum og hvernig hlutdeildin skiptist á milli lífvera.
Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, var gestur á Morgunvaktinnni á Rás 1 í febrúar.
Í febrúar var EFLA til umfjöllunar í útgáfu Energy Focus. Þar ræddu þeir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri, og Steinþór Gíslason, sviðsstjóri orkusviðs, um alþjóðlegan uppgang félagsins og hvernig hann er tilkominn.
Birta Kristín Helgadóttir og Steinþór Gíslason voru í viðtali við Orkublað Orkuklasans í mars. Þar var fjallað um orkuverkefni EFLU hér á landi og erlendis þar sem EFLA sinnir fjölda verkefna fyrir rekstraraðila flutningskerfa fyrir raforku.
Í maí birtist grein í blaði ráðstefnunnar World Tunnel Congress um gerð ísganganna í Langjökli. Þeir Reynir Sævarsson, fyrirliði viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, og Hallgrímur Örn Arngrímsson, fyrrum starfsmaður EFLU og nú viðskiptastjóri á samgöngu- og umhverfissviði Verkís, skrifuðu greinina saman.
Uppbygging nýs Landspítala var til umfjöllunar í Kastljósi í maí. Þar var rætt við Rúnar Jón Friðgeirsson, byggingartæknifræðing hjá EFLU, sem hefur eftirlit með framkvæmd uppbyggingarinnar og Runólf Pálsson, framkvæmdarstjóra Landspítalans.
Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, var í viðtali um almenningssamgöngur á Íslandi í Speglinum á Rás 1 í ágúst.
Í nóvember fjallaði Guðrún Jónsdóttir, hljóðverkfræðingur, um fyrirbærið þögn í innslagi í Uppástandi á Rás 1. Þar var fjallað um ýmis fyrirbæri frá ólíkum hliðum.
Nóttina eftir að eldgos hófst á Reykjanesskaga í lok árs var Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá EFLU, í viðtali við Stöð 2 þar sem hann lagði mat sitt á stöðuna.