Stefna og framkvæmd
EFLA hefur ávallt lagt áherslu á að hafa skýra stefnu og framtíðarsýn, sem og að yfirfara og endurnýja stefnu sína eftir því sem fyrirtæki og markaðir hafa þróast og breyst.

Í lok árs 2023 fór fram stefnumótun hjá EFLU-samstæðunni. Þar var horft til næstu fimm ára, 2024 – 2028. Yfirskrift stefnunnar er „Vit ratar víða – saman mótum við sjálfbæra framtíð” (e. „Knowledge crossing boundaries – together we shape a sustainable future“). Hér er vísað til þess að þekking þarf að flæða óhindrað innan allra fyrirtækja samstæðunnar. Þekking starfsfólks þarf líka að flæða til viðskiptavina í formi þjónustu og lausna. Síðast en ekki síst þarf EFLA stöðugt að afla sér nýrrar þekkingar og vera tilbúin að leiða brýnar áskoranir nútímasamfélaga.
Ein megináhersla í þessari stefnu EFLU kemur fram í setningunni „saman mótum við sjálfbæra framtíð“. EFLA hefur um árabil verið leiðandi fyrirtæki þegar kemur að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. Á það bæði við um eigin rekstur en ekki síður um sjálfbærniáherslur í verkefnum fyrir viðskiptavini.
„Sjálfbær samfélög“ er einmitt ein af fjórum meginstoðum nýrrar stefnu sem undirstrikar að EFLA ætlar sér að leggja mikla áherslu á sjálfbærni og hringrásarhagkerfið í allri sinni þjónustu til framtíðar. Hinar þrjár meginstoðir, og þar með áherslur, stefnunnar eru „Ein EFLA”, „Hæfileikaríkt fólk” og „Markaður og viðskiptavinir”.
Árið 2024 var fyrsta árið í rekstri EFLU þar sem unnið var eftir þessari nýju stefnu og er hún þegar farin að setja verulegt mark á áherslur og þjónustuframboð allra EFLU-fyrirtækjanna.
Eitt af verkefnum ársins 2024 var að klára að uppfylla lágmarkskröfur Flokkunarreglugerðar ESB (e. EU Taxonomy). Hluti af þessari vinnu var að aðlaga ýmsar innri stefnur fyrirtækisins og bæta við nýjum. Stefna um mútur og spillingu og mannauðsstefna voru uppfærðar, svo einhverjar séu nefndar. Fyrirtækið setti sér skattastefnu, stefnu um sanngjarna samkeppni og stefnu um notkun gervigreindar. Þessar stefnur, ásamt mörgum öðrum, eru leiðarljósið í gæðakerfi EFLU sem er í sífelldri aðlögun að breyttum þörfum og kröfum þeirra samfélaga sem samstæðan þjónar.